Add a header to begin generating the table of contents
Illugi Bjarnason. F. nál. 1720, d. 1756 eða 1757. Faðir hans mun hafa verið Bjarni Arngrímsson b. á Fjósum. Búlaus í Hvammi í Langadal -1751-1752. Bóndi í Hvammi á Laxárdal fremri 1752-1756. – Kona: Guðrún Þorláksdóttir, f. nál. 1720, á lífi á Sæunnarstöðum í Hallárdal 1760. For.: Þorlákur Halldórsson b. í Tungunesi á Bakásum og f.k.h. Halldóra Björnsdóttir. Guðrún bjó ekkja á Sæunnarstöðum 1756-1760-. Þau áttu eina dóttur.
Athugasemd: Hér kann að vera um að ræða Guðrúnu Þorláksdóttur sem keypti Másstaði í Skíðadal fyrir lausafé 8. okt. 1753.
(Sýslumannaæfir I, 596; Dómab. Skag. 14. ágúst 1754; Ættatölub. Jóns Espólíns, 3346 og 5083; Ættatölub. Ólafs Snóksdalíns, 213; Ættatölub. Steingríms Jónssonar, 89).
Illugi Björnsson. F. um 1726, á lífi í Þverárdal 1787. For.: Björn Illugason b. í Koti í Vatnsdal og k.h. Valgerður Guðmundsdóttir, síðar g. Ólafi Sigurðssyni b. í Stafni. Bóndi í Sauðanesi á Ásum -1752-1753, á Syðri-Leifsstöðum 1753-1776 og á Krithóli á Neðribyggð -1781-1784. Vinnumaður í Þverárdal -1786-1787-. Illuga var úthlutað gjafakorni 8. jan. 1757. – Kona: Þorbjörg Sæmundsdóttir, f. um 1723, á lífi í Skagafjarðarsýslu 1789. For.: Sæmundur Teitsson b. á Strjúgsstöðum og k.h. Guðrún Sveinsdóttir. Hún var skírnarvottur í Glaumbæjarprestakalli í Skagafjarðarsýslu 16. des. 1789. Börn: Guðný, f. um 1746, var hjá foreldrum sínum á Syðri-Leifsstöðum 1762. Valgerður, f. um 1752, g. fyrr Guðmundi Símonssyni b. á Syðri-Leifsstöðum, síðar Ásmundi Höskuldssyni b. á Krithóli. Guðmundur, f. um 1758 á Leifsstöðum, d. 20. jan. 1829 í Neðra-Ási í Hjaltadal, vm. í Rugludal 1816, kv. Ólöfu Jónsdóttur. Björn, f. um 1760 á Syðri-Leifsstöðum, b. og hreppstj. í Neðra-Ási, kv. fyrr Helgu Jónsdóttur, síðar Guðrúnu Þorkelsdóttur, átti einnig börn með Sigríði Símonsdóttur og Vilborgu Önundardóttur, eitt með hvorri.
(Æfisaga Gísla Konráðssonar, 25; Skagfirðingabók 1969, 18-52; Norðri 1856 (nr. 5), 20; Ættatölub. Jóns Espólíns, 4603-4604).
Illugi Gíslason. F. um 1776 í Holti í Svínadal, d. 14. júlí 1843 í Holti. For.: Gísli Sigurðsson b. í Holti og k.h. Guðrún Illugadóttir, síðar g. Ólafi Guðmundssyni b. á Auðólfsstöðum. Fermdur í Blöndudalshólaprestakalli 1789, þá sagður 13 ára. Bóndi á Eyvindarstöðum 1799-1808 og í Holti 1808 til æviloka og hafði jafnframt bú á Holtastöðum í Langadal 1815-1816 og á Stóra-Búrfelli í Svínavatnshreppi 1816-1833. Illugi var fremur hávaxinn, rauður á hár og skegg, freknóttur og mjög hærður, talinn með hraustari mönnum. Hann var merkisbóndi og varð auðugur, bæði að fasteignum og lausafé. Hann átti hálfa Eyvindarstaði. – Kona, g. 14. maí 1799, Þuríður Ásmundsdóttir, f. um 1773 á Fjöllum í Kelduhverfi, d. 29. júní 1837 í Holti. For.: Ásmundur Pálsson b. á Fjöllum og f.k.h. Guðrún Ketilsdóttir. Hún er kennd við Geitaskarð. (Ættatölub. Ólafs Snóksdalíns, 496-497). Börn: Guðrún, f. um 1799 á Eyvindarstöðum, g. Jónasi Einarssyni b. á Gili. Eiríkur, f. um 1801 á Eyvindarstöðum, d. 20. okt. 1828 í Holti, vm. í Holti, ókv., en átti son með Guðrúnu Guðmundsdóttur. Gísli, f. um 1804 á Eyvindarstöðum, d. 26. okt. 1819 í Holti. Ásmundur, f. um 1807 á Eyvindarstöðum, b. í Holti, kv. Helgu Guðmundsdóttur, átti einnig dóttur með Guðrúnu Jóhannsdóttur. Sigríður, f. 8. apríl 1811 í Holti, g. (Hans) Lárusi Vormssyni b. á Geitaskarði í Langadal.
Athugasemd: Samkvæmt Sýsluskjölum Skagafjarðarsýslu var Þuríður systir Þóru Torfadóttur húsm. í Hraukbæ í Kræklingahlíð 1801. Það stangast á við skiptabækur.
(Íslenzkar æviskrár V, 414-415; Frændgarður I, 289-290; Ættir Þingeyinga XI, 9-10; Húnvetningasaga II, 574, 588, 594-597 og 664 og III, 694 og 847; Saga frá Skagfirðingum II, 116-117 og 177; Hrakhólar og höfuðból, 47; Svipir og sagnir, 108; Föðurtún, 158; Húnavaka 1979, 107-113; Brandsstaðaannáll, 145; Landsyfirréttardómar II, 389-393 og 397-406; Biskupsskjalasafn B VII; Sýsluskj. Skag. 1865 (þrakk um sveitfesti Guðmundar Jónssonar); Skiptab. Hún. 19. sept. 1781, 21. nóv. 1814 og 21. sept. 1858; Eiðsstaðaætt – Handrit Björns Bjarnasonar á Brandsstöðum; Ættatölub. Jóns Espólíns, 1399, 5486 og 6844; Ættatölub. Ólafs Snóksdalíns, 338, 496-497 (innskotsblöð), 692b og 722-723; Ættatölub. Sighvats Grímssonar Borgfirðings, 1883).
Illugi Jónasson. F. 30. ágúst 1825 á Stóru-Mörk, d. 11. júlí 1900 í Eiríksstaðakoti. For.: Jónas Einarsson b. á Gili og k.h. Guðrún Illugadóttir. Var hjá foreldrum sínum á Gili 1835 og fermdist í Bólstaðarhlíðarsókn 1839. Bóndi á Steiná 1854-1856, á Gili 1856-1860, í Hvammi í Svartárdal 1860-1863 og á Botnastöðum 1863-1872. Húsmaður í Finnstungu 1872-1873. Bóndi í Skyttudal 1873-1879. Húsmaður á Skeggsstöðum 1879-1883. Bóndi í Sellandi 1883-1886. Vinnumaður á Skeggsstöðum 1886-1887, en matvinnungur á sama stað 1887-1890. Hann var í skjóli Guðrúnar dóttur sinnar í Ytra-Tungukoti 1890-1895, á Eyvindarstöðum 1895-1898 og í Eiríksstaðakoti 1898 til æviloka. Illugi var álitlegur maður, í hærra lagi og vel vaxinn, hægur í fasi, stillilegur og góðlegur. Hann var snemma vel hagur og hneigður til smíða, lærði söðlasmíði hjá Torfa Steinsen söðlasmið í Reykjavík og stundaði þá iðn sína jafnframt því að hann sinnti öðrum smíðum. Hann var ekki mikilvirkur til smíða en mjög velvirkur og allt, sem frá honum kom, var snoturt og með þokkablæ. – Kona, g. 14. júní 1853, Ingibjörg Ólafsdóttir, f. 13. okt. 1825 á Auðólfsstöðum, d. 28. nóv. 1885 í Sellandi. For.: Ólafur Björnsson b. á Auðólfsstöðum og k.h. Margrét Snæbjörnsdóttir. Ingibjörg fermdist í Holtastaðasókn 1839. Hún var vinnukona á Auðkúlu í Svínadal 1850-1851, á Svínavatni í Svínavatnshreppi 1851-1852 og í Sauðanesi á Ásum 1852-1853. Ingibjörg var mjög gáfuð og bókelsk, vel að sér til munns og handa, góðlynd og gamansöm, en ekki mikil búsýslukona. Börn: Jónas, f. 7. mars 1854 á Gili, d. 25. jan. 1863 í Hvammi. Gísli, f. 21. mars 1855 á Steiná, d. 21. ágúst 1858 á Gili. Ólafur, f. 9. jan. 1857 á Gili, d. 14. jan. 1857 á sama stað. Guðrún, f. 6. apríl 1858 á Gili, g. Bjarna Björnssyni b. á Eyvindarstöðum, bjó síðar með Oddi Þorsteinssyni b. á Hólmi í Fljótsbyggð í Nýja-Íslandi. Gísli, f. 11. des. 1860 í Hvammi, vm. í Finnstungu 1890, ókv. Margrét, f. 2. júlí 1862 í Hvammi, húsm. á Brandsstöðum, g. fyrr Jóhannesi Sveinssyni b. á Tindum á Ásum, síðar Sigurði Sigfússyni b. við Oak View í Manitoba, en áður á Höllustöðum í Blöndudal. Jónas, f. 12. júní 1865 á Botnastöðum, b. í Brattahlíð, kv. Guðrúnu Sigurðardóttur. Ólafur, f. 29. nóv. 1867 á Botnastöðum, d. 2. des. 1867 á sama stað. – Barnsfaðir Ingibjargar: Jakob Jónsson, f. 26. sept. 1815 á Smyrlabergi á Ásum, d. 11. des. 1885 á Efra-Skúfi í Norðurárdal, b. á Brandsstöðum. For.: Jón Jónsson b. á Smyrlabergi og f.k.h. Guðrún Þorvarðsdóttir. Barn: Einar, f. 6. sept. 1843 á Auðólfsstöðum, d. 2. febr. 1872 á Botnastöðum, vm. í Hvammi í Svartárdal 1860, en síðast á Botnastöðum, ókv., en gekkst við syni Dagbjartar Kráksdóttur.
(Íslenzkar æviskrár V, 414-415 og VI, 300-301; Borgfirzkar æviskrár VIII, 108; Icelandic River Saga, 600-601; Ættarskrá Bjarna Þorsteinssonar, 371 og 373; Hrakhólar og höfuðból, 45-93; Troðningar og tóftarbrot, 33-58; Húnavaka 1979, 109-110 og 1988, 109-110; Almanak Ólafs Thorgeirssonar 1914, 92-93, 1938, 76-77 og 1953, 97; Heimskringla 5. nóv. 1952; Skiptab. Hún. 21. sept. 1858; Eiðsstaðaætt – Handrit Björns Bjarnasonar á Brandsstöðum; Skeggsstaðaætt – Handrit Björns Bjarnasonar á Brandsstöðum; Ættatölub. Jóns Espólíns, 275, 551, 1399 og 4759; Ættatölub. Ólafs Snóksdalíns, 125, 336, 338, 477 og 722).
Illugi Jónsson. F. 1728 í Ási í Kelduhverfi, d. 14. jan. 1782 í Ísafjarðardjúpi. For.: Jón Þorsteinsson b. á Blikalóni á Melrakkasléttu og k.h. Þorgerður Illugadóttir. Lærði í Hólaskóla og varð stúdent þaðan 1750. Búsettur í Glaumbæ á Langholti -1751-1752. Bóndi í Vatnshlíð 1752-1754, í Árnesi í Trékyllisvík 1754-1760, í Vatnsfirði í Vatnsfjarðarsveit 1760-1780, á Kirkjubóli í Langadal 1780-1781 og á Neðra-Bakka í Langadal 1781 til æviloka. Vígðist 25. ágúst 1754 að Árnesi. Hann var sóknarprestur í Árnesprestakalli í Strandaprófastsdæmi 1754-1760, en aðstoðarprestur í Vatnsfjarðarprestakalli í Ísafjarðarprófastsdæmi 1760-1779 og þjónaði kallinu fram á árið 1780. Sóknarprestur í Kirkjubólsþingum í Ísafjarðarprófastsdæmi 1779 til æviloka. Séra Illugi var ljúfmenni, vel gefinn og talinn forspár. Hann var skarpur og hugvitssamur, hagleiksmaður hinn mesti og vel að sér, jafnvel í náttúrufræðum, einkum steinafræði. Hann smíðaði vatnsúrverk, tvö borð úr surtarbrandi, og sagt er að hann hafi smíðað allt fingrarímið í spjöldum. Með samþykki konu sinnar seldi séra Illugi Þorsteini Þórðarsyni presti á Stað í Grunnavík 8 hundruð í Bæ í Súgandafirði með tveimur kúgildum fyrir 47 ríkisdali 13. okt. 1763. Um veturnætur 1751 var Illugi í samkvæmi á Reykjarhóli hjá Víðimýri ásamt Guðmundi Arnþórssyni bónda á Grófargili á Langholti, og kom þá til orðahnyppinga þeirra á milli. Á Illugi að hafa sagt við Guðmund: ,,Nú er kominn á þig helvítis Hólamóðurinn gamli” eða ,,Hér er komið Hólaskvaldur”, en Guðmundur svarað: ,,Lastaðu ekki Hóla, þar höfum við mestir mennirnir orðið, þar höfum við báðir etið gráða.” Síðan flugust þeir á, en Sæmundur Magnússon á Víðimýri skildi þá. Tildrög að dauða Illuga voru þau, að hann var á heimleið úr Ísafjarðarkaupstað ásamt syni sínum og fleiri mönnum með skipi, sem strandaði á skeri skammt undan Arngerðareyri á Langadalsströnd. – Kona, g. 14. sept. 1760, Sigríður Magnúsdóttir, f. 5. jan. 1741 í Vatnsfirði, d. 8. sept. 1830 í Lambhúsum á Álftanesi. For.: Magnús Teitsson pr. í Vatnsfirði og k.h. Ingibjörg Markúsdóttir. Sigríður var húskona á Hvítadal í Saurbæjarsveit 1782-1784, en bjó ekkja á Hóli í Hvammssveit 1785-1791 og í Skógum á Fellsströnd 1791-1799. Hún var í skjóli Markúsar bróður síns í Görðum á Álftanesi 1799-1801-, í skjóli Karítasar dóttur sinnar í Lambhúsum -1816-1817-, í skjóli Markúsar bróður síns í Görðum -1821-1825, í skjóli Karítasar dóttur sinnar í Görðum 1825-1826 og í Lambhúsum 1826 til æviloka. Kaupmáli Illuga og Sigríðar var gerður 28. ágúst 1760. Börn: Þorsteinn Elías, f. um 1760, d. 1817 í Halle í Þýskalandi, málari í Braunschweig í Þýskalandi, kv. þýskri konu. Hann tók sér nafnið Hjaltelin. Karítas, f. 5. sept. 1764 í Vatnsfirði, d. 10. júní 1837 í Lambhúsum, g. Jóni Jónssyni lektor í Lambhúsum. Ingibjörg, f. um 1767 í Vatnsfirði, d. 19. júlí 1834 í Hafnarfirði, ráðsk. í Hafnarfirði, óg., en átti tvíburadrengi með Rahr Muxoll b. á Brekku á Álftanesi. Þorgerður, f. um 1768, g. fyrr Snorra Hallgrímssyni verkam. á Ísafirði, síðar Niels Vandell verslunarm. á Ísafirði, átti milli manna dætur með Guðmundi Ketilssyni verslunarm. á Ísafirði 1801 og Sigurði Sigurðssyni húsmanni á Kirkjubóli í Skutulsfirði 1801, eina með hvorum. Elín, f. um 1769, g. Bjarna Péturssyni b. í Súðavík í Álftafirði. Magnús, f. um 1770, sigldi og dó erlendis. Hjalti, f. um 1773 í Vatnsfjarðarsókn, d. 13. júní 1865 í Odda á Rangárvöllum, lyfsalasveinn í Nesi við Seltjörn 1801, ókv., en átti syni með Þóru Guðbrandsdóttur og Elísabeti Ingjaldsdóttur, einn með hvorri. Hann tók sér nafnið Ísfeldt. Kristín, f. um 1774, d. 11. apríl 1812 í Garðasókn í Gullbringusýslu, vk. í Hítardal í Hraunhreppi 1801, óg. Ebeneser, f. um 1776, á lífi 1782. Abigael, f. um 1777 í Vatnsfirði, d. 4. júní 1859 á Setbergi við Hafnarfjörð, g. Níels Ólafssyni beyki í Hafnarfirði. María, f. í ágúst 1778, d. 22. sept. 1785 í Svansvík í Ísafirði, var í fóstri í Svansvík. Jón, f. nál. 1765, d. 14. jan. 1784 í Ísafjarðardjúpi. Alls eru Illugi og Sigríður talin hafa átt 15 börn. (Ættatölub. Steingríms Jónssonar, 201).
Athugasemd: Í Íslenzkum æviskrám greinir að Illugi og Sigríður hafi átt syni með Eiríksnafni og Petreusarnafni. Það á sér ekki stoð í ættatölum.
(Íslenzkar æviskrár II, 390-391 og III, 194-195 og 461; Dalamenn II, 94 og 125; Strandamenn, 500; Íslenzkir Hafnarstúdentar, 139; Kennaratal á Íslandi I, 271; Dansk Biografisk Lexikon VII, 462; Allgemeine Deutsche Biographie XII, 283-284; Sagnaþættir Fjallkonunnar, 76-80; Annálar 1400-1800 IV, 586-587, V, 170, 301, 323, 338, 396 og 403-404 og VI, 92 og 239; Annáll nítjándu aldar I, 418; Fjallkonan 7. og 21. jan. 1890; Óðinn IX, 1-2 og 23-24; Alþingisb. XIV, 515; Dómab. Skag. 2. des. 1751; Lbs. 52, fol., 58; Æfir lærðra manna (þáttur Illuga Jónssonar í Kirkjubólsþingum); Prestaæfir Sighvats Grímssonar Borgfirðings (þáttur Illuga Jónssonar í Kirkjubólsþingum); Ættatölub. Jóns Espólíns, 180-181 og 4564; Ættatölub. Ólafs Snóksdalíns, 389 og 583; Ættatölub. Steingríms Jónssonar, 201, 4074 og 5715-5716).
Illugi Sigurðsson. F. um 1643, á lífi á Fossum 1703. For.: Sigurður Magnússon pr. á Auðkúlu í Svínadal og k.h. Guðríður Egilsdóttir. Bóndi í Ljótshólum í Svínadal -1688-1690- og á Fossum 1696-1703-. Hann mun hafa búið á Fossum til æviloka, en ekki er vitað hvenær hann dó. – Kona: Margrét Þorsteinsdóttir, f. um 1647, á lífi á Fossum 1703. Faðir: Þorsteinn Sveinsson b. í Holti í Svínadal. Börn: Sigurður, f. um 1671, b. og lögréttum. í Húsey í Vallhólmi, ókv., en átti son með Guðríði Benediktsdóttur, þau systkinabörn. Þórdís, f. um 1672, var hjá foreldrum sínum á Fossum 1703. Guðríður, f. um 1678, g. Böðvari Gunnarssyni b. og hreppstj. á Fremstagili í Langadal. Jón, f. um 1681, b. á Gili, kv. Herdísi Andrésdóttur. Egill, f. um 1682, b. í Hvammi í Svartárdal, kv. Engilráð Bjarnadóttur. Guðríður, f. um 1684, g. Bjarna b. á Norðurlandi, Sveinn, f. um 1686, b. í Vallholti í Vallhólmi, kv. Þórunni Jónsdóttur. Sigríður, f. um 1691, g. Þorbirni Tómassyni b. í Sellandi. Þorsteinn, f. um 1694, b. í Syðri-Mjóadal, kv. Oddnýju Björnsdóttur, átti áður barn með Guðríði Bjarnadóttur húsm. í Hvammi í Svartárdal. Jón. (Ættatölub. Jóns Espólíns, 3373).
(Íslenzkar æviskrár IV, 245-246; Lögréttumannatal, 462; Húnvetningasaga I, 55 og 215-216; Saga frá Skagfirðingum I, 47, 65, 78-79, 145 og 159; Feðraspor og fjörusprek, 124-127; Vorþeyr og vébönd, 224-226; Húnavaka 1994, 76-78; Ættatölub. Jóns Espólíns, 3367-3373; Ættatölub. Jóns Magnússonar, 475; Ættatölub. Ólafs Snóksdalíns, 552-553; Ættatölub. Steingríms Jónssonar, 687 og 3680).
Ingibjörg Aradóttir. F. um 1772 á Víðimýri í Seyluhreppi, d. 13. febr. 1846 á Skottastöðum. For.: Ari Tómasson b. á Húsabakka á Glaumbæjareyjum og k.h. Guðríður Jónsdóttir. Vinnukona á Mælifellsá á Efribyggð -1795-1796-, á Sveinsstöðum í Tungusveit -1800-1802-, í Héraðsdal í Tungusveit -1816-1817, á Úlfsstöðum í Blönduhlíð 1817-1821, í Héraðsdal aftur 1821-1822, í Kolgröf á Efribyggð 1822-1823, á Steiná 1823-1824-. Bústýra á Skottastöðum -1826-1829. Vinnukona á Skottastöðum 1829-1832, á Keldulandi á Kjálka 1832-1833 og á Silfrastöðum í Blönduhlíð 1833-1834, en var hjá Sigríði dóttur sinni í Reykjavík 1834-1837. Vinnukona á Skottastöðum aftur 1837-1840. Tökukona á sama stað 1840 til æviloka. – Barnsfaðir: Einar Bjarnason, f. 1767 (sk. 27. jan. 1767) í Borgargerði í Norðurárdal, d. 25. nóv. 1842 í Héraðsdal, b. á Ysta-Vatni á Efribyggð. For.: Bjarni Gunnarsson b. í Borgargerði og k.h. Guðrún Jónsdóttir. Barnið fæddist 26. apríl 1794. Einar sór fyrir það á manntalsþingi á Lýtingsstöðum í Tungusveit 22. maí 1794. Barnsfaðir: Hallur Jónsson, f. 1769 (sk. 2. okt. 1769) á Silfrastöðum, d. 12. júlí 1806 í Efra-Lýtingsstaðakoti í Tungusveit, b. í Efra-Lýtingsstaðakoti. For.: Jón Gunnarsson b. í Stafni og s.k.h. Margrét Eggertsdóttir. Barn: Sigríður, f. 18. des. 1795 á Mælifellsá, d. 17. maí 1866 á Melnum í Reykjavík, g. Hannesi Erlendssyni skósmið í Brunsbæ í Reykjavík 1835, en síðar á Melnum. Barnsfaðir: Árni Jónsson, f. 1766 (sk. 21. des. 1766) á Silfrastöðum, dr. 4. febr. 1814 í Jökulsá eystri í Skagafjarðarsýslu, b. á Skatastöðum í Austurdal, For.: Jón Gunnarsson b. í Stafni og s.k.h. Margrét Eggertsdóttir. Barn: Guðmundur, f. 28. ágúst 1801 á Sveinsstöðum, vm. á Egilsá í Norðurárdal 1850, ókv.
(Sjómenn og sauðabændur, 296-297; Saga frá Skagfirðingum III, 103; Ritsafn Stefáns Jónssonar á Höskuldsstöðum III, 31-33 og 56-58; Æfisaga Gísla Konráðssonar, 21; Dómab. Skag. 22. maí 1794; Ættatölub. Jóns Espólíns, 4405).
Ingibjörg Jónsdóttir hét búandi á Strjúgsstöðum 1734-1735, þá væntanlega ekkja.
Ingigerður Helgadóttir. F. um 1794 á Brandsstöðum, d. 27. júlí 1845 á Eiðsstöðum í Blöndudal. For.: Helgi Þórðarson b. á Brandsstöðum og f.k.h. Ólöf Símonsdóttir. Var hjá foreldrum sínum á Brandsstöðum 1801. Húsmóðir á Eiðsstöðum 1816-1825, á Brandsstöðum 1825-1826 og á Eiðsstöðum aftur 1826 til æviloka. – Fyrri maður: Benedikt Tómasson, f. um 1789 á Eiðsstöðum, d. 28. ágúst 1828 á sama stað, b. á Eiðsstöðum. For.: Tómas Tómasson b. á Eiðsstöðum og k.h. Ingiríður Jónsdóttir. Benedikt var hjá foreldrum sínum á Eiðsstöðum 1801. Börn: Helgi, f. 18. júlí 1818 á Eiðsstöðum, b. á Svínavatni í Svínavatnshreppi, kv. fyrr Ingibjörgu Arnórsdóttur, síðar Jóhönnu Steingrímsdóttur, átti einnig son með Guðrúnu Pálsdóttur. Jón, f. 2. okt. 1821 á Eiðsstöðum, d. 28. júlí 1843 á Kagaðarhóli á Ásum, síðast vm. á Kagaðarhóli, ókv. Solveig, f. 12. júlí 1823 á Eiðsstöðum, g. Jóhannesi Guðmundssyni b. í Hólabæ. Seinni maður, g. 6. okt. 1829, Halldór Auðunsson, f. 1794 í Blöndudalshólum, d. 27. sept. 1858 á Stóra-Búrfelli í Svínavatnshreppi, b. á Eiðsstöðum. For.: Auðun Jónsson pr. í Blöndudalshólum og k.h. Halldóra Jónsdóttir. Halldór var hjá foreldrum sínum í Blöndudalshólum 1801. Barn: Hólmfríður, f. 3. mars 1831 á Eiðsstöðum, g. fyrr Birni Erlendssyni b. á Stóra-Búrfelli, síðar Sigfúsi Hannessyni b. á Barkarstöðum.
(Íslenzkar æviskrár I, 107 og III, 32-33; Borgfirzkar æviskrár IV, 45-46; Skagfirzkar æviskrár 1850-1890 II, 248-250 og V, 131-133; Ljósmæður á Íslandi I, 344; Niðjatal Þorvalds Böðvarssonar prests í Holti undir Eyjafjöllum og Björns Jónssonar prests í Bólstaðarhlíð, 55-57; Fortíð og fyrirburðir, 64-65; Hlynir og hreggviðir, 142-209; Hrakhólar og höfuðból, 188; Vorþeyr og vébönd, 228-229; Húnavaka 1976, 95-96 og 1978, 48-51; Brandsstaðaannáll, 7; Skiptab. Hún. 11. maí 1829, 20. apríl 1844 og 9. maí 1846; Eiðsstaðaætt – Handrit Björns Bjarnasonar á Brandsstöðum; Ættatölub. Jóns Espólíns, 576-578; Ættatölub. Ólafs Snóksdalíns, 534 og 827; Ættatölub. Steingríms Jónssonar 117).
Ingimundur Guðmundsson. F. nál. 1705, á lífi í Kurfi á Skagaströnd 1760. For. ókunnir. Bóndi í Álfhóli á Skagaströnd -1733-1739, í Glaumbæ í Langadal 1739-1741- og í Gautsdal -1744-1746-. Búsettur í Hofsprestakalli -1755-1756-. Bóndi í Kurfi 1757-1760-. Ingimundur hlaut dóm fyrir sauðatöku 1756. – Kona: Steinunn Egilsdóttir, f. nál. 1710, á lífi í Hofsprestakalli 1755. Óvíst er um foreldra hennar, en hún gæti hafa verið systir Sesselju Egilsdóttur vk. í Svínavatnshreppi 1749. Barn: Magnús, f. um 1745, b. í Ytra-Tungukoti, kv. Þórdísi Jónsdóttur, átti áður son með Helgu Gunnarsdóttur. Árið 1755 voru tvö börn þeirra hjóna sögð flakkandi í Hofsprestakalli, en ekki eru þau nafngreind. Barnsmóðir: Ingibjörg Jónsdóttir, f. nál. 1705, vk. í Hofsprestakalli. For. ókunnir. Barn þeirra fæddist 1734 eða 1735 í Hofsprestakalli.
(Ættir Skagfirðinga, 322; Biskupsskjalasafn B VII; Dómab. Hún. 21. okt. 1749 og 31. maí 1756).
Ingimundur Jónsson. F. 4. maí 1773 í Hraungerðisprestakalli í Árnessýslu, d. 5. des. 1828 í Glaumbæ í Langadal. For.: Jón Guðmundsson b. á Arnarstöðum í Hraungerðishreppi og k.h. Eydís Þorsteinsdóttir. Fermdur í Hraungerðissókn 1787. Vinnumaður í Bólstaðarhlíð -1800-1801-. Búlaus á Skeggsstöðum -1803-1805. Bóndi á Skeggsstöðum 1805-1806 og í Glaumbæ 1806 til æviloka. – Kona: Kristín Jónsdóttir, f. um 1780 í Bólstaðarhlíðarsókn, d. 19. ágúst 1850 á Balaskarði á Laxárdal fremri. For.: Jón Gíslason b. á Stóru-Mörk og k.h. Solveig Eyjólfsdóttir. Kristín var hjá foreldrum sínum á Stóru-Mörk 1786, en fermdist í Blöndudalshólaprestakalli 1792, þá sögð 15 ára. Hún bjó ekkja í Glaumbæ 1828-1835, en giftist þá Brynjólfi Eyvindssyni b. í Glaumbæ. Börn: Vilhjálmur, f. 7. des. 1804 á Skeggsstöðum, b. á Strjúgsstöðum, kv. Þórunni Eyvindsdóttur. Kristín, f. 5. júlí 1805 á Skeggsstöðum, g. fyrr Jóni Jónssyni b. í Strjúgsstaðaseli, síðar Gísla Andréssyni b. á Breiðavaði í Langadal. Guðbjörg, f. 16. maí 1808 í Glaumbæ, g. fyrr Sveini Sveinssyni b. í Hólabæ, síðar Stefáni Sveinssyni b. í Hólabæ. Jóhannes, f. 2. sept. 1818 í Glaumbæ, b. á Vakursstöðum í Hallárdal, kv. Ragnhildi Brandsdóttur.
Athugasemdir: 1) Ingimundur og Kristín voru komin í hjúskap við Manntal á Íslandi 1801. 2) Guðbjörg Ingimundardóttir var af sumum talin laundóttir Björns Jónssonar pr. í Bólstaðarhlíð.
(Skagfirzkar æviskrár 1850-1890 I, 51-52; Föðurtún, 113; Biskupsskjalasafn B VII; Skiptab. Hún. 31. jan. 1829 og 5. og 16. des. 1851).
Ingunn Steingrímsdóttir, f. 5. júlí 1811 á Geldingaskarði á Skagaströnd, d. 1. febr. 1868 á Ípishóli á Langholti, For.: Steingrímur Jónsson b. í Kurfi á Skagaströnd og k.h. Sigríður Ólafsdóttir. Fermd í Hofssókn 1824. Vinnukona á Eyvindarstöðum 1828-1829- og á Bollastöðum -1834-1841-. Bústýra í Eyvindarstaðagerði -1842-1843. Húskona á Bergsstöðum 1843-1844. Húsmóðir í Skinþúfu í Vallhólmi 1844-1861 og á Ípishóli 1861 til æviloka. – Maður, g. 6. jan. 1844, Gísli Jónsson, f. 6. mars 1800 á Grófargili á Langholti, d. 15. ágúst 1869 á Ípishóli, b. í Skinþúfu 1834-1861 og á Ípishóli 1861-1868. For.: Jón Jónsson b. í Torfgarði á Langholti og k.h. Halldóra Sigurðardóttir. Gísli var hjá foreldrum sínum á Grófargili 1802 og fermdist í Glaumbæjarprestakalli í Skagafjarðarsýslu 1814. Hann var hjá Halldóri syni sínum á Ípishóli 1868 til æviloka. Á yngri árum varð Gísli uppvís að því að hafa hnuplað verðmætum frá Ingjaldi Jónssyni presti á Hafsteinsstöðum í Staðarhreppi í félagi með Pétri Guðmundssyni vinnumanni á Hafsteinsstöðum. Börn: Kristján Konráð, f. 7. mars 1845 í Skinþúfu, b. á Breiðstöðum í Gönguskörðum, kv. Aðalbjörgu Gísladóttur. Ingibjörg, f. 13. febr. 1847 í Skinþúfu, d. 17. apríl 1851 á sama stað. Helga, f. 11. mars 1851 í Skinþúfu, g. Guðmundi Frímanni Sigurðssyni b. á Ytra-Þverfelli. Andrés, f. 9. mars 1855 í Skinþúfu, d. 16. nóv. 1926 í Oak View í Manitoba, sjóm. í Litlabæ í Reykjavík 1880, en síðar b. í Siglunesbyggð í Manitoba, kv. fyrr Helgu Jafetsdóttur, síðar Sigríði Jónsdóttur. – Barnsfaðir: Jón Ólafsson, f. 15. jan. 1816 á Eyvindarstöðum, d. 20. júlí 1894 á Brandsstöðum, b. í Barkarstaðagerði. For.: Ólafur Tómasson b. á Eyvindarstöðum og f.k.h. Ingiríður Guðmundsdóttir. Börn: Guðmundur, f. 21. ágúst 1842 í Eyvindarstaðagerði, b. í Holtakoti í Biskupstungum, kv. Valgerði Hafliðadóttur. Andrés, f. 11. sept. 1843 á Bergsstöðum, d. 10. apríl 1851 í Skinþúfu. – Fyrri kona Gísla, g. 8. des. 1833, Ingibjörg Sigurðardóttir, f. um 1807, d. 2. ágúst 1843 í Skinþúfu. For.: Sigurður Jónsson b. í Stafni og s.k.h. Helga Jónsdóttir. Ingibjörg fermdist í Víðimýrarsókn í Skagafjarðarsýslu 1821. Hún var vinnukona á Valabjörgum á Skörðum -1826-1827, í Stafni 1827-1831 og á Bergsstöðum 1831-1833, en talin fyrir búi í Skinþúfu fardagaárið 1833-1834. Börn: Halldór, f. 10. ágúst 1834 í Skinþúfu, d. 6. mars 1835 á sama stað. Halldór, f. 15. nóv. 1835 í Skinþúfu, b. á Ípishóli, kv. Ingibjörgu Jónsdóttur. Helga, f. 26. jan. 1837 í Skinþúfu, d. 16. apríl 1837 á sama stað. Lárus Andrés, f. 6. mars 1838 í Skinþúfu, d. 18. okt. 1893 í Litladal í Svínavatnshreppi, vm. á Auðkúlu í Svínadal 1880, en síðast í Litladal, ókv. Anna, f. 24. febr. 1839 í Skinþúfu, d. 25. maí 1840 á sama stað. Ragnheiður, f. 21. júlí 1841 í Skinþúfu, g. Benedikt Bjarnasyni vm. í Selhaga, bjó svo með Gísla Gíslasyni b. í Selhaga. drengur, f. 25. júlí 1843 í Skinþúfu. Hann fæddist andvana. – Barnsfaðir Ingibjargar: Pétur Þórðarson, f. um 1808 á Kúfustöðum, d. 16. júní 1871 í Barkarstaðagerði, b. lengst í Hvammi í Svartárdal, en síðast í Barkarstaðagerði. For.: Þórður Jónsson b. á Kúfustöðum og k.h. Hólmfríður Bjarnadóttir. Börn: Bjarni, f. 4. júlí 1830 í Stafni, b. á Neðri-Rauðalæk á Þelamörk, kv. (Soffíu) Helgu Jónsdóttur, átti áður son með Guðlaugu Jónsdóttur. Dýrfinna, f. 14. des. 1831 á Bergsstöðum, d. 27. des. 1864 á Auðunarstöðum í Víðidal, húsk. í Bjarghúsum í Vesturhópi 1860, óg. Barnsfaðir Ingibjargar: Önundur Jónsson, f. um 1805 í Fagranessókn í Skagafjarðarsýslu, d. 7. ágúst 1868 á Innstalandi á Reykjaströnd, vm. á Eldjárnsstöðum í Blöndudal 1835. For.: Jón Einarsson b. á Sauðá í Borgarsveit og barnsm.h. Steinunn Gísladóttir vk. í Fagranessókn. Önundur var íturvaxinn og hraustur, talinn vel skynsamur, en þótti nokkuð blendinn og kvenkær. Barn: Sveinn, f. 14. júní 1833 í Skinþúfu, d. 11. des. 1847 á Reykjarhóli hjá Víðimýri.
(Skagfirzkar æviskrár 1850-1890 II, 50-52, 55-57, 102-103 og 243-244, III, 51-53 og 62-64 og V, 171-174; Skagfirzkar æviskrár 1890-1910 II, 201-202; Sjómenn og sauðabændur, 127-128; Saga frá Skagfirðingum I, 118 og II, 54-55 og 65; Feðraspor og fjörusprek, 53-54; Hlynir og hreggviðir, 93-95; Sagnaþættir Gísla Konráðssonar, 182-195; Syrpa úr handritum Gísla Konráðssonar II, 148-156; Æfisaga Gísla Konráðssonar, 5 og 6; Þjóðsögur Jóns Árnasonar II, 171-172 og IV, 175-178 og 327-328; Brandsstaðaannáll, 148; Almanak Ólafs Thorgeirssonar 1914, 89-90 og 1928, 120; Lögberg 24. febr. 1927; Dómab. Skag. 19. okt. 1809 og 19. apríl 1823; Skiptab. Hún. 17. okt. 1826 og 2. des. 1843; Guðmundur í Hvammi – Handrit Kristínar Sigvaldadóttur á Skeggsstöðum; Ættatölub. Jóns Espólíns, 466-467, 1845, 2134-2135, 2282-2283, 3807-3808, 3809, 3929 og 4772; Ættatölub. Ólafs Snóksdalíns, 37, 337, 412, 543 og 830; Ættatölub. Steingríms Jónssonar, 5433).
Ingveldur Árnadóttir. F. um 1733, á lífi á Fjósum 1801. For.: Árni Halldórsson b. á Fjósum og s.k.h. Steinunn Illugadóttir. Var hjá Halldóri bróður sínum á Fjósum 1762. Bústýra hjá Þorbergi bróður sínum á sama stað 1774-1801-. Ingveldur var skartkona. Ógift og barnlaus.
Athugasemd: Ingveldur kann að hafa dáið í september 1805. Í Minnisbók Jóns Espólíns er þess getið að þá hafi tvær systur Þorbergs á Fjósum dáið, en ekki eru þær nafngreindar.
(Húnvetningasaga II, 413-415 og 423-424; Blanda IV, 81-88; Lbs. 696, 8vo (Minnisbók Jóns Espólíns); Ættatölub. Jóns Espólíns, 605; Ættatölub. Ólafs Snóksdalíns, 342; Ættatölub. Steingríms Jónssonar, 306).