Ingibjörg Guðmundsdóttir húskona í Sunnuhlíð við Skottastaði

Ingibjörg Guðmundsdóttir húskona í Sunnuhlíð við Skottastaði, f. 18. apríl 1874 á Hóli í Svartárdal, d. 17.mars 1936 á Bergsstöðum í Svartárdal.

Foreldrar hennar voru Guðmundur Jónsson bóndi í Hvammi í Svarárdal og k.h. Guðrún Árnadóttir.

Ingibjörg ólst upp hjá foreldrum sínum í Hvammi og fermdist frá þeim með ágætum vitnisburði. Vann að búi þeirra fram á fullorðinsár. Hjá Margréti systir sinni á Kúfastöðum 1909-1917. Húskona á Kirkjuhóli hjá Víðimýri 1917-1919, en fluttist þá að Hvammi og síðar að Skottastöðum, í bæ sem Sigurður bróðir hennar, bóndi í Hvammi byggði, yfir hana í svonefndri Skottastaðahlíð, og hét bærinn Sunnuhlíð. Húskona þar 1920 – 1932, á Bergsstöðum 1932 – æviloka.

Ingibjörg var vel meðal há vexti, nokkuð þrekvaxin,talin fríð sýnun á yngri árum, rauðhærð með mikið og sítt hár. Hæg í framgöngu og kom sér hvarvetna vel. Kurteis og barngóð, oft fengin til að vera hjá sængurkonum fyrstu dagana eftir að þær áttu börn. Á unglíngsárum fóir að bera á geðtruflunum hjá Ingibjörgu, lýstu þær sér á þann veg, hún hljóp frá heimili sínu þegar minnst varði og að jarðfalli sem er utan og ofanvert við Leifsstaðbæinn. Þar stóð hún og virtist ræða við einhvern í miklum æsingi. Eftir þessi köst var hún lengi að jafna sig og var þá rúmföst dögum saman. Þegar leið á ævi hennar dróg mjög úr þeim og voru alveg horfin á síðustu árum hennar í Sunnuhlíð. Bærinn í Sunnuhlíð var ekki stór, baðstofa með þremur rúmum og borði undir suðurglugga. Hlóðaeldhús lítið og búr inn af því. Baðstofa þiljuð með trégólfi og búr sömuleiðis þiljað og með hellugólfi og eins var hellugólf í eldhúsi. Útihús voru yfir fáeinar kindur og einn hest, en Ingibjörg átti lengi brúnan hest sem hún notaði til ferðalaga. Aldrei fór hún nema fetið, og virtist ekki liggja á. Hún fór oft á sumrin milli bæja í Svartárdalnum og vildi þá helst vinna við fataviðgerðir eða prjónaskap, en var lítið gefin fyrir heyvinnu, reiddi þó alltaf með sér hrífu sína og gekk í flekk ef að mikið lá við að ná saman heyji. Kaup vildi hún fá í heyji eða búsafurðum en síður í peningum. Á Sunnuhlíðarárum sínum naut Ingibjörg stuðnings Sigurðar bróður síns í Hvammi og einnig Guðrúnar Guðmundsdóttur bróðurdóttur sinnar á Skottastöðum og manns hennar Halldórs Jóhannssonar. Einhverra hluta vegna taldi Ingibjörg sig ekki geta búið lengur í Sunnuhlíð, og fluttist í Bergsstaði og var þar á norðurloftinu. Ekki urðu þessi umskifti henni til góðs, hún vildi ekki hafa nema sem minnst samskifti við annað heimilisfólk og það ekki við hana, nema lítið og helst ekkert. Síðast var hún orðin afar lasburða jafnt líkmlega og andlega, og fékk litla sem enga aðhlynningu. Þó að 17. mars sé talinn dánardagur hennar, er það ekki vitað með vissu, því að hún var látin í einhvern tíma áður en það uppgötvaðist hvernig komið var. Heimildarmönnum ber saman um, að Ingibjörg var bráðgáfuð og vel verki farin, en geðtruflanir hafi komið í veg fyrir að hún nyti sín eins og annars hefði orðið.

Ingibjörg var ógift og barnkaus.

Heimildir: Kirkjubækur og manntöl, Guðmundur í Hvammi (handrit) , frásagnir fólks sem þekkti Ingibjörgu.

(SigBj)