Hjálmar Jónsson bóndi í Eiríksstaðakoti f. 29.nóv. 1869 í Fjallhúsum í Blönduhlíð, d. 12. maí 1947 á Seyðisfirði.
Foreldrar hans voru: Jón Sigurðsson bóndi í Kóngsgarði (Fjallhúsa-Jón) og k.h Margrét Jónsdóttir.
Hjálmar ólst upp hjá foreldrum sínum fram undir fermingu. Smali á Hóli í Svartárdal 1883-1884 og fermdur þaðan með góðum vitnisburði. Síðan hjú hjá foreldrum sínum næstu árin. Vinnumaður á Syðra-Vatni á Efribyggð 1890 eða lengur, á Torfustöðum í Svartárdal 1894-1896,á Eyvindarstöðum í Blöndudal 1896-1897, húsmaður á Eldjárnsstöðum í Blöndudal 1897-1898, á Leifsstöðum í Svartárdal 1898-1900,bóndi í Eiríksstaðakoti 1900-1901, húsmaður á Hóli í Svartárdal 1901-1902, bóndi á Valabjörgum á Skörðum 1902-1905, húsm. aftur á Hóli 1905-1906,bóndi í Hátúni á Langholti 1906-1910,Minna- Akragerði í Blönduhlíð 1910-1912, Víðimýrarseli á Skörðum 1912-1914, Kirkjuhóli hjá Víðimýri 1914-1917, verkamaður á Sauðárkróki 1917-1922 en flutti þá til Seyðisfjarðar og settist að á Vatnsdalseyri en síðast búsettur hjá Ingimundi syni sínum á Fjarðaröldu í Seyðisfirði og lést þar.
Hjálmar var smár vexti og svo afllítill að hann taldist varla fullvinnufær til erfiðsvinnu, hann var ætíð með lítin bústofn og fátækur jafnan. Þegar búskap hans á Kirkjuhóli lauk, mátti kalla að þau Guðrún væru öreigar með talsverða ómegð. Eftir nokkur ár á Sauðárkróki fluttust þau austur til Seyðisfjarðar að áeggjan Sveinbjarnar bróður Guðrúnar. Um tíma munu þau hafa haft hug á því að flytjast til Vesturheims. Á Vestdalseyri vann Hjálmar almenna verkamanna vinnu ásamt því að hafa dálítin bústofn. Síðustu árin var hann þungt haldinn af heymæði og brjóstþyngslum eins og algengt var um þá sem höfðu meðhöndlað misjafnlega verkað hey. Hjálmar og Guðrún voru seinustu árin í skjóli Ingimundar sonar þeirra. Hjálmar var dugnaðar maður eftir því sem þrek og heilsa leyfði, velgefinn og vinsæll og mun oft hafa notið þess hjá þeim sem voru betur máttu.
Kona hans 25.júní 1898, Guðrún Ásta Ingimundardóttir f. 16.apríl 1874 á Syðri -Ey á Skagaströnd d. 29.júlí 1947 á Seyðisfirði.
Foreldrar hennar voru: Ingimundur Sveinsson smáskanntalæknir og bóndi á Tungubakka á Laxárdal og k.h. Júlíana Ingibjörg Ólafsdóttir.
Guðrún ólst upp hjá foreldrum sínum fram eftir aldri en fór í vistir í Laxárdal og víðar um Húnaþing. Vinnukona á Eyvindarstöðum í Blöndudal 1896- 1897, en fylgdi Hjálmari eftir það.Guðrún var í lægra meðallagi á vöxt, samsvaraði sér vel. Ævinlega kát og lífsglöð þrátt fyrir margvíslega erfiðleika og mótblástur. Síðustu árin var hún blind.
Börn þeirra voru:
Ingiríður Ósk f. 8.júlí 1898 á Leifsstöðum í Svartárdal, d. 30.mars 1961 á Seyðisfirði. Húsfreyja þar. M.h. Níels Jónsson verkam. á Seyðisfirði
Ingibjörg f. 27.júlí 1902 á Valabjörgum á Skörðum. Dó í barnæsku.
Sveinbjörn Jón f. 28.des. 1905 á Hóli í Svartárdal, d. 5.des. 1974 á Seyðisfirði. Verkam. þar. K.h. Ásta Sveinbjörnsdóttir
Ingimundur f.7.sept. 1907 í Hátúni á Langholti, d. 15.júní 1995 á Seyðisfirði. Bifreiðarstjóri og síðar sýsluskrifari þar. K.h. Unnur Jónsdóttir.
Ingibjörg f. 2.jan. 1916 á Kirkjuhóli, d. 3.okt. 1962 á Seyðisfirði. Verkakona þar. Óg. og barnl.
Heimildir:
Kirkjubækur og manntöl. Skagf. æviskrár 1890-1910 3.bindi. Mbl. 14.júlí 1995,D.V 16.nóv.2000
(SigBj)