Sveinn Hallgrímsson bóndi í Hólabæ f. 10. júní 1869, d. 23.okt. 1903 í Mjóadal á Laxárdal.
Foreldrar hans voru Hallgrímur Hallgrímsson bóndi á Hjaltabakka og f. k.h. Helga Sveinsdóttir.
Sveinn missti móður sína á sjöunda ári, en þá voru foreldrar hans búandi á Yðstagili í Langadal. Þá fór hann í fóstur að Tindum í Svínavatnshreppi og dvaldi þar frá 1875 – 1885 þar af talinn vinnum. síðustu tvö árin. Vinnum. í Tungunesi á Ásum 1885-1889,á Æsustöðum í Langadal 1889-1893, aftur í Tungunesi 1893-1894, bóndi í Hólabæ í Langadal 1894-1899, húsmaður á Hjaltabakka í Torfalækjarhreppi 1899-1900, og í Mjóadal 1900 til dauðadags. Sveinn var greindar maður og hvarvetna vellátinn. Gestrisinn og greiðasamur eins og efni leyfðu. Óhætt er að segja að bestu ár þeirra hjóna voru búskaparárin í Hólabæ, og það varð þeim afar þungt áfall að þurfa að flytja þaðan. Sveinn veiktist skyndilega og lést að kvöldi annars dags frá því að hann kenndi sér meins.
Kona hans 1894 (gifting finnst ekki innfærð í kirkjubók) María Steinsdóttir f. 24.sept.1871 á Fjósum í Svartárdal d. 11.júní 1959 á Akranesi.
Foreldrar hennar voru Steinn Guðmundsson bóndi á Ytra Þverfelli og víðar og k.h. Jórunn Guðmundsdóttir.
María ólst upp hjá foreldrum sínum þangað til faðir hennar lést, en fór þá í vistir, fyrst að Bólstaðarhlíð og þaðan að Finnstungu og fermdist þaðan með ágætum vitnisburði. Vinnuk. á Æsustöðum í Langadal 1888 – 1894, húsfreyja í Hólabæ í Langadal 1894-1899, húskona á Hjaltabakka 1899-1900, í Mjóadal 1900 – 1913, á Haukagili í Vatnsdal 1913 – 1919, á Eyjólfsstöðum í Vatnsdal 1919-1920, en flytur þá að Síðumúla í Borgarfirði til Ingibjargar Guðmundsdóttur frá Mjóadal. Í Síðumúla var María næstu 4 árin, en fluttyst þá að Skógum í Flókadal til Bjargar dóttur sinnar og manns hennar Þórðar Erlendssonar frá Sturlureykjum. Hjá þeim var hún uppfrá því, síðast á Akranesi.
María var lág vexti og grönn, létt á fæti og harðdugleg. Góðgjörn og vildi öllum vel. Nærfærin við sjúklinga og var oft fengin til aðstoðar þegar veikindi voru á bæjum. Henni var það kappsmál að mennta dóttur sína eins vel og hægt væri af takmörkuðum efnum. Um Maríu má lesa nánar í tímaritinu Hlín 1 tölublaði 1960, en þar ritar Ingibjörg Guðmundsdóttir ýtarlega minningargrein um hana.
Barn Sveins og Maríu var:
Björg f. 17. des. 1897 í Hólabæ í Langadal, d. 4.sept. 1990 á Akranesi. Húsfreyja á Skógum í Flókadal síðar á Akranesi. M. h. Þórður Erlendsson frá Sturlureykjum í Reykholtsdal.
Heimildir: Kirkjubækur,manntöl, Hlín 1.1. 1960.
(SigBj)