Ólafur Jónsson bóndi í Kóngsgarði, f. 19.ágúst 1839 í Hvammi í Svartárdal, d. 18.maí 1924 í Stóra-Holti í Fljótum.
Foreldrar hans voru Jón Rafnsson þá vinnum. í Hvammi síðar bóndi í Rugludal og k.h. Sigurlaug Þórðardóttir.
Ólafur ólst upp hjá foreldrum sínum og fremdist frá þeim með ágætum vitnisburði. Vann að búi þeirra fram á fullorðinsár.Vinnumaður í Stafni í Svartárdal 1865- 1867, á Eyvindarstöðum í Blöndudal 1867-1868 húsmaður í Rugludal 1868-1869, bóndi í Kóngsgarði 1869 – 1872, á Steinhóli í Flókadal 1872-1876, húsm. í Gilkoti – 1883, bóndi í Mikley 1883 – 84,húsm. á Brúnastöðum í Tungusveit 1884-1885, bóndi á Laufási á Neðribyggð 1885-1887, Stapa í Tungusveit 1887-1888, Halldórsstöðum á Langholti 1888- 1892, Hátúni á Langholti 1892- 1896, Eggjarseli í Hegranesi 1896-1898 eða lengur, Grófargili 1901-1902, og Borgarey í Hólmi 1901-1904. Brá þá búi og fluttist til Guðmundar sonar síns í Stóra-Holti og andaðist þar. Ólafur var hægur í framgöngu, lágur vexti en þrekinn, talinn yngri árum vera snarmenni og fylginn sér. Svarthærður og dökkur yfirlitum. Hafði ætíð lítið bú og fátækur jafnan, en skilamaður og vildi engum skulda. Eftir að þau Margrét skildu, var Margrét systir hans ráðskona hjá honum þar til hún andaðist 1904.
Kona hans 5. nóv. 1867, Margrét Reykjalín Jónsdóttir f. 2.nóv. 1843 á Kimbastöðum í Borgarsveit d. 17.sept. 1932 á Akureyri. (Þau Margrét og Ólafur skildu 1875)
Foreldrar hennar voru Sr. Jón Reykjalín Jónsson á Þönglabakka í Fjörðum og k.h. Sigríður Jónsdóttir.
Margrét ólst upp hjá foreldrum sínum en fór snemma í vistir. Leiðir þeirra Ólafs lágu saman þegar bæði voru vinnuhjú á Eyvindarstöðum. Eftir að þau slitu hjúskap, var hún í vinnumennsku,m.a. í Vallholti í Hólmi. Margrét fluttist til Guðmundar sonar síns þegar hann reisti bú í Stóra-Holti og var hjá honum alla tíð eftir það. Fyrst í Stóra-Holti en síðar á Akureyri og lést þar.
Born þeirra voru:
Jónas Sigurður f. 3.jan 1869 í Rugludal d. 18.júní sama ár í Kóngsgarði.
Guðmundur f. 25.júlí 1872 á Steinhóli í Flókadal d. 28.ágúst 1956. Bóndi í Stóra-Holti í Fljótum en síðar byggingarmeistari á Akureyri. F.k.h. Svanfríður Jónsdóttir, s.k.h. Ingibjörg Bjarnadóttir.
Barnsmóðir Ólafs var Jóhanna Kristjánsdóttir Scheel f. 17.maí 1867 á Þorbjargarstöðum í Laxárdal d. 20.nóv. 1951 á Sauðárkróki.
Foreldrar hennar voru Kristján Scheel Skúlason bóndi á Þorbjargarstöðum og k.h. Oddný Þorgrímsdóttir.
Jóhanna var alin upp hjá foreldrum sínum við þröngan kost. Heimilið var barnmargt og mun Skefilstaðahreppur hafa lagt þeim til aðstoð þegar erfiðast var. Jóhanna fór ung til vandalausra og var í vistum þangað til að hún settist að á Sauðárkróki. Þar hélt hún heimili fyrir fólk sem var utangarðs í samfélaginu og átti hvergi eiginlegan samastað. Jóhanna sem ætíð gekk undir nafninu Jóa skel, var þekkt persona bæði á Sauðárkróki og víðar um Skagafjörð.
Barn þeirra var:
Steinunn Ingibjörg f. 30.júlí 1904 , d. 29.sept. 1936 á Sauðárkróki. Húsfreyja þar. M.h. Magnús Konráðsson verkam. á Sauðárkróki.
Heimildir:
Kirkjubækur og manntöl, Skagfirskar æviskrár 1890- 1910 3.bindi, Skagfirskar æviskrár 1850-1890 6.bindi, Saga Sauðárkróks.
Athugasemd. Kaflinn um Ólaf í Skagfirskum æviskrám 1890-1910 er að mörgu ónákvæmur og leiðréttist hér.
(SigBj)