Þorlákur Ásmundsson bóndi í Skyttudal

Þorlákur Ásmundsson bóndi í Skyttudal, f. 29. maí 1853 á Syðri – Brekkum í Blönduhlíð, d. 13.jan 1928 á Blönduósi.

Foreldrar hans voru Ásmundur Ásmundsson bóndi á Syðri-Brekkum og k.h. Ingibjörg Þorláksdóttir.

Þorlákur fór ungur að heiman, tökubarn í Brekkukoti í Blönduhlíð 1860, fermdist frá Ásgeirsbrekkum, vinnum. á Frostastöðum 1870, bóndi á Heiðarseli í Gönguskörðum 1879-1880, vinum. á Veðramóti í Gönguskörðum 1880-1882, í Mjóadal í Laxárdal 1882-1884, bóndi í Skyttudal á Laxárdal 1884-1886, í Hvammi í Laxárdal 1886-1887, vinnum. í Gautsdal í Laxárdal 1887-1888, í Stóradal í Svínavatnshreppi 1888 – 1899, bóndi í Auðkúluseli 1899-1907, vinnum. í Litladal í Svínavatnshreppi 1907- 1915, á Ytri-Löngumýri í Blöndudal 1915- 1917, í Finnstungu í Blöndudal 1917- 1921, Húsmaður á Kárastöðum á Ásum 1921- 1922, Syðri-Löngumýri 1922- 1923, Ytri- Löngumýri 1923 – 1927. Fluttist þá til Blönduós og lést þar árið eftir.

Þorlákur var vel meðalmaður á hæð, þrekvaxin og burðamaður að afli. Greindarmaður, jafnlyndur, þéttur fyrir og lét ógjarnan hlut sinn. Einhverra hluta vegna lét honum ekki sjálfsstæður búskapur vel, en var eftirsóttur verkmaður undir annara stjórn. Þorlákur var dökkur á hár og skegg og gekk jafnan með alskegg , ætíð snyrtilegur og naut almennra vinsælda.

Kona hans 1. maí 1897 Sigurbjörg Gísladóttir var f. 31.mars 1866 á Krossárbakka í Bitru, d. 8. júlí 1939 á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri.

Foreldra hennar voru Gísli Gíslason bóndi á Krossárbakka og k.h. Helga Guðmundsdóttir.

Sigurbjörg missti föður sinn þegar hún var á fyrsta ári og fluttist þá með móður sinni að Valdaási í Víðidal og síðar að Kóngsgarði í Svartárdal. Þegar Sigurbjörg hafði aldur til fór hún í vistir. Fylgdi Þorláki eftir að leiðir þeirra lágu saman, en eftir lát hans var hún um tíma á Litla Búrfelli í Svínavatnshreppi en síðast hjá Þórunni dóttur sinni á Akureyri og lést þar. Sigurbjörg var vel meðalkona á hæð, beinvaxin og sköruleg í framgöngu.Ljóshærð og gráeygð. Hærðist lítið sem ekkert með aldri. Svipurinn festulegur og augnaráðið hvasst og stundum heldur kalt ef henni mislíkaði. Hún var vel gefin skapkona, gat virst nokkið þurrleg við fyrstu kynni en raungóð þeim er minna máttu sín. Óáleitin, en stóð fast á sínu við hvern sem var. Síðustu árin var hún á vegum Þórunnar dóttur sinnar á Akureyri.

Börn hennar og Þorláks voru:

Tvíburastúlkur f. 9.okt. 1897 í Stóradal í Svínavatnshreppi d. sama dag

Barnsmóðir Þorláks og sambýliskona um skeið var Kristín Helgadóttir f. 20. apríl 1852 á Kimbastöðum í Borgarsveit, látin í Vesturheimi.

Kristín ólst upp hjá foreldrum sínum, mun hafa farið ung í vistir. Vinnuk. í Stafni í Svartárdal 1870,ráðskona Þorláks í Skyttudal 1884-1886 og í Hvammi á Laxárdal 1886-1887. Fluttist til Vesturheims. Maður hennar þar, Páll Jónsson Norðdal.

Barn Kristínar og Þorláks var

Sigurjón Þorlákur f. 15.mars 1877 d. 27.apríl 1943 bóndi á Tindum í Svínavatnshreppi. K.h. Guðrún Erlendsdóttir.

Barnfaðir Sigurbjargar var Hjálmar Sigurðsson bóndi og söðlasmiður í Stafni í Svartárdal. Sjá þátt um Hjálmar. Barn þeirra var:

Þórunn Stefanía f. 13. mars 1893 d. 18.júní 1966 Húsfreyja á Kárastöðum á Ásum, síðar búsett á Akureyr, síðast á Skinnastöðum í Torfalækjarhreppi, í skjóli Lúsindu dóttur sinnar.

Heimnildir: Kirkjubækur og manntöl, Skagfirskar æviskrá 1850-1890 2 bindi, frásagnir heimildarmanna.

(SigBj)