Guðmundur Sigurðsson bóndi á Fossum

Guðmundur Sigurðsson bóndi á Fossum, f. 14. feb. 1853 á Kárastöðum á Ásum, d. 28.mars 1928 á Fossum.

Foreldrar hans voru Sigurður Guðmundsson bóndi á Kárastöðum á Ásum og k.h. Ingibjörg Pálmadóttir.

Guðmundur ólst upp hjá foreldrum sínum, en missti móður sína á 8. ári og fylgdi föður sínum eftir það. Sigurður faðir hans var bóndi á Snæringsstöðum í Svínadal þegar Ingibjörg lést.Sigurður var vinnum. á Tindum í Svínavatnshreppi 1862-1864, en fluttust þá að Sellandi í Blöndudal og gerðist ráðsmaður hjá ekkjunni Unu Jóhannesdóttur. Guðmundur var í Sellandi 1864-1866, í Rugludal 1866-1868 og fermdist þaðan með ágætum vitnisburði, aftur í Sellandi 1868-1873, vinnum. á Bollastöðum í Blöndudal 1873-1890, bóndi á Fossum 1890-1917 eftir það í skjóli Guðmundar sonar síns, bónda á Fossum.

Guðmundur var rétt meðalmaður á hæð, þrekinn og sterkur að afli. Hann var rauðleitur á hár og skegg, varð snemma sköllóttur en hafði ræktarlegt alskegg. Hann var lengi gangnaforingi á Eyvindarstaðaheiði og réttarstjóri við Stafnsrétt, afar þolinn göngumaður og flestum kunnugri á heiðinni. Farsæll stjórnandi og hafði hvers manns traust. Guðmundur var greindur og athugull, fylgdist með landsmálum eins og kostur var og var ekki síður vel að sér en þeir er bjuggu í meira fjölmenni. Jörðina Fossa leigði hann af Landssjóði, en gerði henni til góða eins og um eigarjörð hans væri að ræða. Eftir lát Engilráðar konu Guðmundar, var kona að nafni Sigríður Jónsdóttir frá Vatnshorni í Línakradal lengi ráðskona hjá Guðmundi á Fossum og lést þar 7. ág. 1923.

Kona hans 12.júlí 1890 Engilráð Guðmundsdóttir f. 29. ágúst 1854 á Hóli í Svartárdal, d. 23. maí 1904 á Fossum.

Foreldrar hennar voru Guðmundur Jónsson bóndi á Hóli og síðar í Hvammi í Svartárdal og k.h. Guðrún Árnadóttir.

Engilráð ólst upp hjá foreldrum sínum og vann að búi þeirra þar til hún giftist Guðmundi. Engilráð var ríflega meðalkona á hæð, dökkhærð, bláeygð og fölleit. Sköruleg í framgöngu.Örlind og hreinskiptin Hún féll frá á miðjum aldri og voru berklar banamein hennar eins og fleiri þeirra syskinna.

Börn Guðmundar og Engilráðar voru

Guðrún f. 18. ág. 1891 á Fossum, d. 17.jan. 1925 á sama st. Ógift og barnlaus.

Guðmundur f. 10. ág. 1893 á Fossum., d. 29. ág.1976 á sama st. Bóndi á Fossum. K.h. Guðrún Þorvaldsdóttir

Ingibjörg f. 16.júlí 1898 á Fossum, d. 23. ág. 1910 á sama st.

Heimildir: Kirkjubækur og manntöl, Guðmundur í Hvammi (handrit), Húnavaka 2012, frásagnir heimildarmanna.

(SigBj)