Þorkell Kristjánsson bóndi í Kóngsgarði, f. 17.sept. 1843 á Reykjavöllum á Neðribyggð, d. 14.ág. 1872 á Nautabúi.
Foreldrar hans voru Kristján Jónsson bóndi á Reykjavöllum og k.h. Ingiríður Þorkelsdóttir.
Þorkell var þriggja ára þegar faðir hans féll frá, og ólst hann upp hjá móður sinni eftir það, en hún bjó ekkja á Reykjavöllum. Þorkell var bóndi á Skíðastöðum á Neðribyggð 1867-1868, í Kóngsgarði í Svartárdal 1868-1869 á Nautabúi 1869 til æviloka. Þorkell var góður búmaður og hafði ríflegt meðalbú sem fór stækkandi en féll frá á besta aldri. Hann var orðin í efnaðri bænda tölu og skuldlaust dánarbú hans var virt á rúmlega 555 ríkisdali.
Barnsmóðir hans og sambýliskona um skeið var Margrét Jóndóttir f. 13.mars 1837 í Merkigarði í Tungusveit, d. eftir 1880 í Vesturheimi.
Foreldrar hennar voru: Jón Andrésson bóndi í Merkigarði og k.h. Guðlaug Jónsdóttir.
Margét ólst upp hjá foreldrum sínum og vann að búi þeirra þar til hún gerðist ráðskona hjá Þorkeli. Fyrst á Skíðastöðum, þá í Kóngsgarði og síðast á Nautabúi. Eftir lát Þorkels bjó hún á Nautabúi 1872-1873, á Hafgrímsstöðum 1873-1874,húskona á Álfgeirsvöllum 1874-1875, í Héraðsdal 1875-1876, en fluttist þá með manni sínum og börnum til Vesturheims. Settist fyrat að í Árnesbyggð, en síðar í Pembina í N-Dakota og síðast í Fjallabyggð í Pembina N-Dakota.
Barn þeirra Þorkels og Margrétar var Þorkell f. 1870 fluttist til Vesturheims með móður sinni 1876.
Maður Margrétar 1874 var Kristinn Hermannsson f. 1851 í Bitrugerði í Kræklingahlíð, d. 4.jan. 1911 í Port Madison í Wasington.
Foreldrar hans voru Hermann Sigfússon bóndi í Bitrugerði og k.h. Helga Sighvatsdóttir.
Kristinn ólst upp hjá foreldrum sínum, en fór snemma í vistir. Var sjóm. og vinnum. í Miðkoti í Útskálasókn 1873, vinnum. á Hafgrímsstöðum 1873-1874,húsmaður á Álfgeirsvöllum 1874-1875,í Héraðsdal 1875-1876 en fluttist þá til Vesturheims og settist fyrst að í Árnesbyggð, en síðar í Pembina í N-Dakota. Var landnemi í Pembinahæðum sem fékk nafnið Fjallabyggð en var síðast í Port Madison í Wasington.
Börn þeirra Kristins og Margrétar voru:
Sigurjón Ólafur f. 1874 fluttist til Vesturheims með foreldrum sínum
Jóhann Hjörtur f. 1875 fluttist til Vesturheims með foreldrum sínum
Helga Guðrún f. 1877 í Árnesbyggð
Björn Júlíus f. 1880 í Pembina
Heimildir: Kirkjubækur,manntöl, Ábúendatal Skagafjarðar,Skagafirskar æviskrár 1850-1890 3.bindi.
(SigBj)