Ólafur Sigurðsson bóndi á Kúfastöðum

Ólafur Sigurðsson bóndi á Kúfastöðum. F. 30.júní 1893 í Eyhildarholti í Hegranesi d. 22.nóv.1943 á Kúfastöðum í Svartárdal.

Foreldrar Sigurður Sigfússon bóndi í Eyhildarholti og k.h. Soffía Ólafsdóttir.

Ólafur missti föður sinn þegar hann var á 3ja ári og ólst upp með móður sinni og seinni manni hennar Jóhanni Sigfússyni bónda á Torfustöðum í Svartárdal. Ólafur var vinnum. á Eiríksstöðum í Svartárdal 1915-1916,á Leifsstöðum 1916-1917,bóndi í Brekku hjá Víðimýri 1917-1919,á Eiríksstöðum 1919-1921, á Bergsstöðum í Svartárdal 1921-1926, Hóli í Svartárdal 1926-1932,vinnum. á Eyvindarstöðum í Blöndudal 1932-1935, bóndi á Kúfastöðum 1935-æviloka. Ólafur var vel meðalmaður á hæð, grannvaxinn og ljós yfirlitum. Greindarmaður, hægur í farmgöngu og hvervetna vel látinn og vinsæll.Hann var enginn áhlaupamaður við verk en vannst vel. Verkhyggin og laginn. Ólafur var einstakur snyrtimaður í búskap og öll umgengni og umhirða til fyrirmyndar. Ólafur var oft í vegavinnu hluta af sumri og hafði þar það hlutverk að hlaða ræsi og annað sem vandasamt var að ganga frá. Fé Ólafs gekk ætíð vestan Svartár, enda hafði hann lengstum búið þeim megin árinnar, því var það sumarið 1941, að hann ásamt sonum sínum byggði fjárrétt á bakka Svartár, á móti Kúfastöðum. Ólafur naut þó ekki lengi þessara framkvæmda því hann fór að kenna sér meins seint á árinu 1942 og lést í nóvember árið eftir.

Kona Ólafs 23.des.1916 var Guðrún Jónasdóttir f. 23.maí 1890 á Breiðavaði í Langadal (Miðgili samkv. kirkjubók) d. 16.okt. 1958 á Æsustöðum í Langadal

Foreldrar hennar voru Jónas Einarsson vinnum. á Breiðavaði í Langadal og Sigríður Stefanía Sveinsdóttir vinnuk. á Miðgili í Langadal.

Jónas faðir Guðrúnar var látinn þegar hún fæddist og móðir hennar hafði ekki tök á því að hafa hana á sínum vegum, svo að Guðrún ólst upp á hálfgerðum hrakningi. Var í fóstri á Blöndubakka 1901, hjá Sveini Kristóferssyni og k.h. Helgu Þorleifsdóttur í Sveinshúsi á Blönduósi 1902-1905 og fermdist frá þeim með góðum vitnisburði. Vinnuk. á Fremstagili í Langadal 1905 eða lengur, bústýra hjá Sigurði bróður sínum á Leifsstöðum í Svartárdal 19010-1916, vinnuk. á Leifsstöðum 1916-1917,húsfreyja í Brekku hjá Vðimýri 1917-1919, á Eiríksstöðum í Svartárdal 1919-1921, á Bergsstöðum í Svartárdal 1921-1926,á Hóli í Svartárdal 1926-1932, vinnuk.á Eyvindarstöðum í Blöndudal 1932-1935, á Kúfastöðum 1935-1944, bústýra hjá sonum sínum í Mjóadal á Laxárdal 1944-1949, hjá Sigmari syni sínum á Brandsstöðum 1949- 1957, en var komin til Soffíu dóttur sinnar á Æsustöðum og lést þar.

Guðrún var meðalkona á hæð,dökkhærð og gránaði lítt á hár með aldri, nokkuð þrekvaxin. Rösk í hreyfingum enda harðdugleg. Glaðlind og skemmtileg í viðkynningu, vel gefin og minnug. Guðrún var drífandi við verk og átti það til að ýta við bónda sínum ef henni þótti hann vera lengi að koma sér að verki. Eftir lát Ólafs bjó Guðrún eitt ár á Kúfastöðum, en fluttist þá með sonum sínum að Mjóadal á Laxárdal og þaðan að Brandsstöðum í Blöndudal.

Börn þeirra:

Soffía f. 29. ágúst. 1917 í Brekku, d. 30.ág 1985 í Reykjavík. Húsfreyja í Mjóadal á Laxárdal, ráðskona á Æsustöðum í Langadal síðast í Reykjavík. M.h. Guðlaugur G.Pétursson bóndi í Mjóadal síðar verslunarmaður í Hafnarfirði.Skildu

Sigmar 12.jan. 1921 á Eiríksstöðum, d. 30.okt. 1991. Bóndi og smiður á Brandsstöðum í Blöndudal

Sigurjón f. 8.okt.1922 á Bergsstöðum, d.13.jan 1971 á Blönduósi. Bóndi í Mjóadal og síðar á Brandsstöðum. K.h. María Steingrímsdóttir.

Heimildir: Kirkjubækur,manntöl, Húnavaka,frásagnir fólks sem þekktu þau hjónin.

(SigBj)