Árni Árnason bóndi á Ytra-Þverfelli (Hlíðarseli) f. 14.okt. 1841 í Ölduhrygg á Svartárdal, d. 18.apríl 1888 á Ytra-Þverfelli í Skörðum.
Foreldra hans voru Árni Guðmundsson bóndi í Ölduhrygg og k.h. Guðrún Guðmundsdóttir.
Árni fór fárra ára í fóstur til Odds Guðmundssonar bónda á Giljum í Vesturdal og var þar til 1849 en fór þá til Guðmundar sonar Odds, bónda á Hofi í Vesturdal og síðar á Giljum , og konu hans Sesselju Árnadóttur og var fermdur frá þeim 1856 með ágætum vitnisburði. Árni var hjá fósturforeldrum sínum til 1864, en vinnumaður á Hofi í Vesturdal 1864-1865, á Bústöðum í Austurdal 1865-1869, hjá Indriða bróður sínum í Ölduhrygg 1869-1871,í Flatatungu á Kjálka 1871-1873,á Flugumýri 1873-1874, á Reynistað 1874- , húsmaður í Geitagerði 1880-1881, í Valadal á Skörðum 1881-1883, bóndi á Ytra-Þverfelli 1883 til æviloka.
Árni var vinnumaður lengst af ævi sinnar og mun ekki hafa auðgast á því. Búskapurinn í Þverfelli var smár í sniðum og þröngt um allar athafnir. Árni lést úr lungnabólgu 47 ára að aldri og var dánarbú hans algert þrotabú.
Kona hans 4.júní 1883, María Sigríður Daníelsdóttir f. 5.nóv. 1840 í Þórðarseli í Gönguskörðum, d. 25.maí 1895 í Sólheimum í Sæmundarhlíð.
Foreldrar hennar voru Daníel Þorsteinsson bóndi í Þórðarseli og k.h. Sigríður Eyjólfsdóttir.
María missti móður sína á fjórða ári og ólst upp hjá föður sínum til 1851, en fór þá til vandalausra. Vinnustúlka á Steini á Reykjaströnd 1854-1855, í Ráeyrarkoti í Siglufirði 1855-1857, Skarðsdal í Siglufirði 1857-1858, vinnukona á Móafelli í Stíflu 1858-1859. Á Hofi á Höfðaströnd 1859-1860, Bæ á Höfðaströnd 1860-1862, í Stapa í Tungusveit 1862-1870,í Villinganesi 1870-1871, í Sólheimum í Sæmundarhlíð 1871 – , húskona í Geitagerði 1880-1881, í Valadal á Skörðum 1881-1883, húsfreyja á Ytra-Þverfelli 1883-1888, vinnukona á Írafelli í Svartárdal 1888-1890, í Breiðargerði í Tungusveit 1890-1891, í Reykjaseli á Mælifellsdal 1891-1892, í Litladalskoti í Dalsplássi 1892-1893, á Skarðsá í Sæmundarhlíð 1893-1894, í Sólheimum 1894- æviloka.
María mun hafa kynnst Árna þegar þau voru samtíða í Geitagerði. Við fráfall hans var búið örsnautt og skuldir nokkrar. Talið er að Guðmundur Klemensson bóndi í Bólstaðarhlíð og eigandi Þverfells hafi aðstoðað Maríu við að koma skepnum í verð og einnig mun hann hafa gefið eftir jarðarafgjaldið, sem var í skuld til einhverra ára. Ekki virðist efnahagur Maríu hafa réttst mikið við, eftir að hún fluttist aftur til Skagafjarðar, því að dánarbú hennar var þrotabú.
Börn Árna og Maríu voru:
Guðmundur f. 19. des. 1881 í Valadal d. 26. jan 1936 í Sölvanesi á Fremribyggð. Bóndi í Sölvanesi
Sigurlaug f. 24.jan 1886 á Ytra-Þverfelli d. 25.apríl 1958. Húsfreyja á Þorljótsstöðum í Vesturdal. Maður hennar Gísli Jónasson bóndi á Þorljótsstöðim.
Barnsmóðir Árna og sambýliskona um skeið var
Katrín Hinríksdóttir f. 27.feb.1845 í Sólheimum í Sæmundarhlíð d. 15.des. 1924 í Syðri-Hofdölum.
Foreldrar hennar voru Hinrik Rafnsson þá vinnum. í Dæli í Sæmundarhlíð síðar bóndi á Syðri-Reykjum í Miðfirði og Halldóra Arnþórsdóttir vinnuk. í Sólheimum.
Katrín ólst upp hjá móður sinni og fór í vistir fljótlega eftir fermingu. Vinnukona á ýmsum bæjum í Skagafjarðardölum, en leiðir hennar og Árna lágu saman á Bústöðum. Katrín var myndar kona,dökkhærð og móeygð. Dugleg til allra verka,síglöð og bjartsýn þó að baslið væri mikið. Fróð og stálminnug. Maður hennar var Jónas Jónasson bóndi í Grundarkoti í Blönduhlíð. (Skagfirskar æviskrár 1890-1910 2.bindi bls. 185)
Börn Árna og Katrínar voru:
Sigrún f. 18.okt. 1868 á Bústöðum í Austursal, d. 9.júlí 1869 á sama stað.
María Guðbjörg f.28.okt. 1869 á Bústöðum, d. 16.nóv. 1848. Ógift. Lengi vinnuk. í Ytra-Vallholti í Hólmi.
Heimildir: Kirkjubækur og manntöl, Skagfirskar æviskrár 1850-1890, Skagfirskar æviskrár 1890-1910. Skiftabók Húnavatnssýslu.
(SigBj)