Guðmundur Gíslason bóndi í Eiríksstaðakoti í Svartárdal

Guðmundur Gíslason bóndi í Eiríksstaðakoti í Svartárdal. F. 24.nóv. 1859 á Ásum á Bakásum, d. 25.mars 1905 á Skeggsstöðum í Svartárdal.

Foreldrar hans voru Gísli Ólafsson bóndi á Ásum og síðar á Eyvindarstöðum í Blöndudal og k.h. Elísabet Pálmadóttir.

Guðmundur ólst upp hjá foreldrum sínum og var vinnumaður á búi þeirra til 1895, vinnumaður á Eiríksstöðum í Svartárdal 1895-1897, aftur á Eyvindarstöðum 1897-1901,bóndi í Eiríksstaðakoti (Brattahlíð) í Svartárdal 1901-1903, lausamaður á Skeggsstöðum 1903- æviloka. Guðmundur var nánst í vinnumennsku alla ævi nema þau ár sem hann taldist við búskap í Eiríksstaðakoti. Hann mun ekki hafa verið heilsuhraustur a.m.k. seinni æviár. Guðmundur var ætíð með lítinn bústofn og tíundaði með því minnsta í Bólstaðarhlíðarhreppi. Dánarbú hans var uppgert 1906 með eign til skifta uppá 631 krónu eða því sem næst rúm 40 ærverð.

Guðmundur var ókvæmtur og barnlaus.