Hjálmar Sigurðsson bóndi og söðlasmiður Æsustöðum

Hjálmar Sigurðsson bóndi og söðlasmiður. F. 31.jan.1873 á Æsustöðum í Langadal d. 31.maí 1949 á Sauðárkróki.

Foreldrar hans voru Sigurður Sigurðsson bóndi og smiður á Skeggsstöðum í Svartárdal og s.k.h. Margrét Þorsteinsdóttir.

Hjálmar ólst upp hjá foreldrum sínum á Skeggsstöðum og vann að búi þeirra. Bóndi á Skeggsstöðum 1893-1895, vinnumaður í Valadal á Skörðum 1895-1897, bóndi á Skeggsstöðum 1897-1898, í Vatnshlíð 1898-1899,húsmaður í Valadal 1899- 1900,í Vatnshlíð 1900-1901, smiður í Halldórshúsi á Blönduósi 1901-1905, húsmaður og söðlasmiður í Hvammi í Vatnsdal 1905-1906, húsmaður og smiður á Hofi í Vatnsdal 1906-1907, húsmaður og smiður í Þórormstungu í Vatnsdal 1907-1914, húsmaður og smiður á Hofi í Vatnsdal 1914-1917, bóndi á Fjósahúsum (Höfða) á Fjósafjalli 1917-1918, Selhaga í Skörðum 1918-1923, Kúfastöðum í Svartárdal 1923-1924, Stafni í Svartárdal 1924-1934, á Sauðárkróki 1934 til æviloka.

Hjálmar var hár og þrekinn,hægur og fremur seinlegur í framkomu og tali.Var oft eins og hann væri utan við sig og mælti fátt, einkum ef mikið lá fyrir að smíða. Dimmraddaður og lámæltur. Hjálmar var vandaður maður í einu og öllu og hafði óskorað traust þeirra sem kynntust honum. Engan átti hann óvildarmann. Hjálmar lærði smíðar hjá föður sínum og einnig hjá Benidikt Sigurðssyni söðlasmið á Fjalli í Sæmundarhlíð.Hjálmar vann alltaf að smíðum meðfram búskap, einkum var það söðlasmíði en einnig járnsmíði a.m.k. á Blönduósárum hans, en eftir að hann flutti til Sauðárkróks var aðalvinna hans viðgerðir á ýmiskonar húsmunum meðan honum entist þrek til vinnu.Ekki var smíði Hjálmars talin sérstaklega fínleg, en traust og endingargóð, einkum þóttu aktýi eftir hann vera sterkleg og þola meira en almennt gerðist. Hjálmar var í raun og veru frábitinn búskap og hafði aldrei mikla áhöfn, kom eins lítið að skepnuhirðingu og honum var unnt,nema hross og reiðhesta hirti hann ætíð sjálfur þó að hann væri enginn hestamaður.Hafði samt alltaf hesta á járnum og ól þá vel. Heyskaparmaður mikill og alltaf gróinn í fyrningum, sóttist eftir því að hafa úrvals kaupafólk, sérstaklega duglega sláttumenn. Greiddi hærra kaup en aðrir ef honum féll við fólkið. Sjálfur gekk Hjálmar lítið að heyvinnu einkum seinni árin, en fylgdist vel með og sagði fyrir um öll verk. Hjálmar gat verið meinhæðinn ef svo bar undir eins og þessi saga sýnir. Eitt sinn um haust kom maður nokkur að Stafni og hittir Hjálmar á hlaðinu. Maðurinn var mikill á lofti og hávær og þegar þeir höfðu heilsast, segir hann við Hjálmar „Ég skil ekkert í þér Hjálmar, að vera ekki með fleira fé eins og þú er alltaf heybirgur“ Hjálmar lagði hendur á bak og leit til skiptis upp á bæjarburstirnar og sagði hægt og seint: Mér hefur nú alltaf reynst betra að eiga færri skepnur og lifandi en margar og dauðar“ en maðurinn hafði komist í heyþrot fyrir nokkrum árum og fellt talsvert af fé sínu úr hor. Fyrstu búskaparár sín á Skeggsstöðum var Þórunn systir Hjálmars ráðskona hjá honum, en síðar Stefanía Guðmundsdóttir sem varð eiginkona hans.

Kona 3.júní 1897 Stefanía Lilja Guðmundsdóttir f. 14.ágúst 1876 í Vatnshlíð d. 2.júní 1950 á Sauðárkróki.

Foreldrar hennar Guðmundur Sigurðsson bóndi í Vatnshlíð og k.h. Þuríður Stefánsdóttir.

Stefanía ólst upp hjá foreldrum sínum í Vatnshlíð. Þau Hjálmar munu hafa kynnst á Valadalsárum Hjálmars, því að hún flytst með honum að Skeggsstöðum vorið 1897. Stefanía var allhá vexti,og gildvaxin,gráeygð og nokkuð breiðleit hafði mikið dökkt hár en hærðist snemma. Hún var ætíð glaðsinna og spaugsöm. Börn og unglingar sóttust eftir að vera í kringum hana og hún hafði lag á að gera hvert verk skemmtilegt eins og einn heimilarmaður sagði. Tvímælalaust var það hún sem mestu réð um að þau Hjálmar voru við búskap en settust ekki að í kaupstað, fyrr en á síðustu árum þeirra. Var stundum haft á orði að hún væri bæði bóndinn og húsfreyjan. Þegar þau bjuggu á Blönduósi og eins í Vatnsdalnum, var hún í kaupavinnu, en Hjálmar við smíðar. Stefanía var forkur dugleg, gekk jafnan að heyvinnu og dagleg búsýsla hvíldi á hennar herðum. Hestfær vel og vílaði ekki fyrir sér ferðalög og jafnvel kaupstaðaferðir um hávetur. Barn þeirra var:

Guðmann Sigtryggur f. 4.maí 1900 í Vatnshlð d. 21. ágúst 1973. Bóndi um skeið í Ytra-Tungukoti, síðar trésmiður,organisti og kórstjóri á Blönduósi. F.k. Margrét Þorvaldsdóttir, s.k. Ósk Skarphéðinsdóttir.

Barnsmóðir Hjálmars var Sigurbjörg Gísladóttir f. 31.mars 1866 á Krossárbakka í Bitru, d. 8. júlí 1939 á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Sigurbjörg missti föður sinn þegar hún var á fyrsta ári og fluttist þá með móður sinni að Valdaási í Víðidal og síðar að Kóngsgarði í Svartárdal. Þegar Sigurbjörg hafði aldur til fór hún í vistir og var meðal annars vinnukona á Skeggsstöðum, en þar lágu leiðir hennar og Hjálmars saman. Árið 1897 giftist Sigurbjörg, Þorláki Ásmundsyni bónda á Heiðarseli í Gönguskörðum og víðar. Börn þeirra voru tvíburar, Ingiríður f. 1897 d. sama ár og andvana stúlkubarn . Sigurbjörg var vel meðalkona á hæð, beinvaxin og sköruleg í framgöngu. Hún var vel gefin skapkona, gat virst nokkið kuldaleg við fyrstu kynni. Síðustu árin var hún á vegum Þórunnar dóttur sinnar á Akureyri.

Barn hennar og Hjálmars var:

Þórunn Stefanía f. 13.mars 1893 á Skeggsstöðum í Svartárdal d. 18.júní 1966 á Blönduósi. Maður hennar var Árni Ólafsson bóndi á Kárastöðum á Ásum.

Heimildir: Kirkjubækur,manntöl, Ættir Austur-Húnvetninga, Skag.ævisk.1850-1890 2.bindi ,frásagnir heimildarmanna. ofl.

(Sig.Bj.)