Halldór Guðmundsson bóndi á Botnastöðum

Halldór Guðmundsson bóndi á Botnastöðum. F. 28 jan.1844 í Höskuldsstaðaseli í Hvammshlíðardal d. 30. maí 1898 á Botnastöðum í Svartárdal.

Foreldrar Guðmundur Guðmundsson bóndi í Höskuldsstaðaseli og k.h. Þuríður Halldórsdóttir.

Halldór missti föður sinn þegar hann var á þriðja ári og ólst upp hjá móður sinni. Léttadrengur á Hofi á Skaga 1855, Vinnumaður í Eyjakoti á Skagaströnd 1860 eða lengur, vinnumaður á Ytri-Ey 1865-1868, á Gunnsteinsstöðum í Langadal 1868-1880, bóndi á Kárastöðum á Ásum 1880-1881, vinnumaður á Auðólfsstöðum 1881-1882, í Tungunesi á Ásum 1882-1886,bóndi í Finnstungu í Blöndudal 1886-1887,Ytra-Tungukoti 1887-1888, á Botnastöðum í Svartárdal 1888 til æviloka. Halldór var á yngri árum hið mesta snarmenni,glaðlindur og hermikráka mikil, hefur að öllum líkindum búið í honum talsvert leikaraeðli. Halldór hafði ætíð lítið bú, og mun hafa verið sárfátækur, dánarbú hans var nánast eignalaust þegar skuldakröfur voru dregnar frá.

Kona hans 28.maí 1886 Sigurbjörg Sölvadóttir. F. 2.sept. 1854 á Reynhólum í Miðfirði d. 21.nóv. 1932 í Reykjavík.

Foreldrar hennar voru: Sölvi Jónsson smiður og húsmaður á Reynhólum og k.h. Guðrún Jónsdóttir. Þegar Sigurbjörg var á sjötta ári missti hún móður sína og var þá send á Vindhælishrepp til uppeldis, en Vindhælishreppur hafði þá um nokkurt skeið lagt fjölskyldunni fé til framfærslu. Það varð Sigurbjörgu til láns, að frú Sigríður Árnadóttir á Ytri-Ey tók hana að sér og fylgdi Sigurbjörg henni þar til hún hóf sambúð með Halldóri. Eftir lát Halldórs reyndi Sigurbjörg að halda börnunum hjá sér eins og kostur var. Hún fluttist til Sauðárkróks og var þar annað hvort í vistum eða ráðskona. Eftir nokkur ár á Sauðárkróki, fluttist hún til Reykjavíkur og vann þar fyrir sér ýmist sem vinnukona eða ráðskona. Hún var leigjandi á Klapparstíg 11 þegar hún lést.

Börn Halldórs og Sigurbjargar voru:

Sigríður Guðrún f. 2.feb. 1877 á Gunnsteinsstöðum í Langadal d. 15.okt. 1909 í Reykjavík

Margrét . 29.okt 1884 í Tungunesi á Ásum d. 29.mars í Reykjavík. Gift Aage Martin Cristjan Fredriksen vélstjóra

Ingibjörg f. 5.júní 1887 í Ytra-Tungukoti í Blöndudal. Búsett í Kaupmannahöfn

Aðalheiður f.17.júlí 1888 á Botnastöðum í Svartárdal d. 29.sept. 1968 búsett í Kaupmannahöfn

Guðrún f. 21.sept.1890 á Botnastöðum d. á sama st. 15.feb. 1891

Guðmundur f. 1.ág. 1892 á Botnastöðum d. 13.mars 1948, skartgripasali í Kaupmannahöfn

Jón Valdemar f. 29.okt. 1893 d. 12.ág. 1969 verkamaður í Hafnarfirði. K.h. Sigríður Ólafsdóttir.

Heimildir: Kirkjubækur,manntöl,skiftabók Húnavatnssýslu,Troðningar og tóftarbrot(Saga Nikulásar)

(SigBj)